Yfirlýsing Samtaka fullveldissinna varðandi Icesave

 Vill vekja athygli á yfirlýsingu Samtaka fullveldissinna um  Icesave samningana sem fer hér á eftir.

Samtök Fullveldissinna lýsa yfir andstöðu við fyrirliggjandi Icesave-samninga og lýsa undrun sinni á tilraunum ríkisstjórnarinnar til að hræða almenning og Alþingi með áróðri um einangrun þjóðarinnar frá alþjóðasamfélaginu verði samningarnir ekki samþykktir.

Samtök Fullveldissinna minna á skyldur ríkisstjórnar og Alþingis við æsku landsins og hvetur þingmenn til að minnast loforða sinna um að standa með þjóðinni í endurreisn landsins. Það er ekki gert með auknum skuldbindingum sem geta vegið að afkomu allra þegna hennar til frambúðar.

Alþingi ber skylda til að standa á rétti Íslands í Icesave-málinu og láta fara fram ítarlega úttekt á þeim þjóðréttarlegu atriðum sem það varðar. Í núverandi gerð stenst samningurinn ekki lög og milliríkjasamninga. Ákvæði EES samningsins og lög um Tryggingarsjóð Innstæðueigenda undanskilja ábyrgð ríkisins, sbr álit Ríkisendurskoðunar.

 

GREINAGERÐ MEÐ YFIRLÝSINGUNNI:

 

Icesave-samningatillögurnar sem nú liggja fyrir Alþingi fela í sér fjárskuldbindingar fram í tímann langt umfram það sem ríkissjóður getur tekið á sig, eru gerðar undir hótunum af hálfu ESB ríkja og eru í trássi við lög og milliríkjasamninga. Þær þýða að traust umheimsins á að landið geti áfram verið sjálfstætt og fullvalda ríki og staðið við skuldbindingar sínar gagnvart umheiminum mun dvína.

Íslenska ríkið ber ekki ábyrgð á skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og hefur Ríkisendurskoðandi staðfest það álit. Greiðsluskylda er aðeins að því marki sem eignir sjóðsins hrökkva til og hann verður ekki síðar krafinn um frekari greiðslu þótt tjón kröfuhafa hafi ekki verið bætt að fullu.

Séu gerðir raunhæfir samningar um milliríkjasamstarf til þess hámarka verðmæti fallinna banka og koma til móts við innistæðueigendur getur Alþingi og forseti samþykkt þá, séu þeir í samræmi lög og gildandi samninga sem ríkin eru aðilar að. Núgildandi samningar og lög eru skýr hvað varðar innlánstryggingar gömlu íslensku bankaútibúanna og getur hver sá sem telur sig órétti beittan sótt sitt mál fyrir dómstólum og þarf því ekki atbeina Alþingis sem setti lög um innistæðutryggingar fyrir áratug.

Samtök Fullveldissinna harma þá stöðu sem landið er í og vilja að innstæðueigendur í Bretlandi og Hollandi fái sem mest af sínum innstæðum greiddar af eignum Landsbankans. Alþingi getur heimilað að nýir og raunhæfir samningar verði gerðir um Icesave sem Íslendingar geta ráðið við, og eru í samræmi við milliríkjasamninga og að háttum bandalagsþjóða, til þess að hámarka með samvinnu verðmæti eigna fallinna banka.

Í Stjórnarskránni er skýrt tekið fram að skattur verður ekki lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu og að enginn aðili geti framselt eignir ríkisins. Fyrir núverandi og framtíðar skattgreiðendur liggja ekki frammi upplýsingar um hvernig tryggja eigi fjárframlög og leggja á skatta til að uppfylla ríkisábyrgð þeirra skuldbindinga sem Icesave-samningarnir kynnu að leiða af sér, þegar og ef á hana reynir.

Á hafréttarrástefnunni í Genf árið 1960 greiddu Vestur-Evrópulönd atkvæði gegn landhelgisútfærslu Íslands sem þá byggði gjaldeyristekjur sínar nær eingöngu á fiskútflutningi. Alþjóðadómstóllinn í Haag dæmdi landhelgisútfærsluna í 50 mílur ólögmæta. Árið 1972 neitaði Evrópubandalagið að samþykkja lagfæringu á fríverslunarsamning Íslands við bandalagið nema Íslendingar sættust við Breta og V-Þjóðverja í landhelgisdeilunni. Þá var svipaður hræðsluáróður viðhafður og nú en rættist ekki þó Alþingi stæði fast á rétti Íslands.

Harkaleg aðför ríkisstjórnar Bretlands að íslenskum bönkum og þjóðarhagsmunum stendur enn óbætt og er löngu orðið tímabært að móta kröfur og leita viðræðna um bætur fyrir hana. Að öðrum kosti nást ekki sættir milli Íslands og Stóra-Bretlands.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband